Erfðanefnd landbúnaðarins telur að áætlanir um stóraukið laxeldi í sjókvíum hafi ófyrirséðar afleiðingar og ráðleggur stöðvun á útgáfu leyfa

Erfðanefnd landbúnaðarins hefur þungar áhyggjur af stöðu íslenskra laxastofna vegna mögulegra áhrifa laxeldis í sjókvíum með stofni af erlendum uppruna. Með hliðsjón af almennri stöðu þekkingar um áhrif eldislaxa á villta laxastofna (Glover o.fl. 2017) og varúðarreglu náttúruverndarlaga (9. gr. nr. 60/2013 með síðari breytingum) leggst nefndin gegn notkun á frjóum, norskum eldislaxi í sjókvíaeldi við Íslandsstrendur. Nefndin telur að eldi á frjóum laxi í sjókvíum geti valdið óafturkræfum breytingum á erfðasamsetningu íslenskra laxastofna með ófyrirséðum afleiðingum. Þessi stefna samrýmist ekki markmiðum laga um fiskeldi (1. gr. nr. 71/2008 með síðari breytingum), laga um náttúruvernd (1. og 2. gr. nr. 60/2013 með síðari breytingum) og samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem leggur áherslu á að vernda lífríki á öllum skipulagsstigum þess, þ.m.t. þeirra erfðaauðlinda sem lífríkið býr yfir.

Nefndin ráðleggur stjórnvöldum að stöðva útgáfu leyfa til laxeldis í sjókvíum a.m.k. þar til nánari  þekkingar hefur verið aflað á umhverfisáhrifum núverandi eldis í sjó að meðtöldu því sem þegar hefur verið leyft. Forgangsaðgerðir í þessu skyni eru vöktun á hlutdeild eldislaxa í laxám á og við fiskeldissvæði ásamt vöktun á erfðablöndun.

Áréttað skal að erfðanefndin leggst ekki gegn fiskeldi svo framarlega sem það sé gert á þann hátt að það ógni ekki erfðaauðlindum á borð við villta íslenska laxastofna. Eldisfiskur er mikilvæg uppspretta fæðu á heimsvísu og getur komið í stað veiða á villtum tegundum sem er jákvætt fyrir erfðafjölbreytni almennt. Nefndin hvetur til rannsókna á notkun ófrjórra eldislaxa og eldistækni sem kemur í veg fyrir slysasleppingar, t.d. landeldis í endurnýtingarkerfum.

Nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja varðveislu erfðaauðlinda

Í stefnumótun erfðanefndar 2014-2018 var umfjöllun um villta laxastofna og hættuna af sjókvíaeldi á laxi við Íslandsstrendur. Álit nefndarinnar var að: „Erfðablöndun norsks eldislax og villtra stofna getur stuðlað að hnignun villtra stofna, breytt erfðasamsetningu þeirra og þar með ógnað líffræðilegum fjölbreytileika. Í ljósi áforma um stóraukið sjókvíaeldi á laxi af norsku kyni er brýnt að innleiða vöktun á erfðablöndun.“

Þegar stefnumótunin var gerð árið 2014 hafði framleiðslan á eldislaxi verið um 3.000 tonn á árinu á undan en starfsleyfi höfðu verið gefin út fyrir um 20.000 tonna framleiðslu. Ársframleiðslan árið 2016 var á hinn bóginn 8.400 tonn (MAST 2017), starfsleyfi hafa verið gefin út fyrir rúmlega 40.000 tonna eldi og í farvatninu eru umsóknir fyrir allt að 150.000 tonna framleiðslu. Forsendur eru því gjörbreyttar frá 2014 og full ástæða er til að staldra við og afla nánari þekkingar á mögulegum afleiðingum áður en leyfi er gefið fyrir margfaldri aukningu eldis í sjókvíum.

Víðtæk erfðablöndun í Noregi

Í Noregi eru framleidd rúmlega milljón tonn af laxi á ári og líklega sleppa a.m.k. ein milljón eldislaxa út í umhverfið á ári hverju (Taranger o.fl. 2014). Þar af leiðandi eru strokulaxar úr eldi líklega fleiri en villtir laxar sem ganga til hrygningar (Glover o.fl. 2017). Á hverju ári veiðast nokkur þúsund eldislaxar í norskum laxám (Svåsand o.fl. 2016).

Tvær nýjar rannsóknir varpa ljósi á alvarleika slysasleppinga í Noregi. Í umfangsmikilli rannsókn sem náði til 175 laxastofna í Noregi (85% auðlindarinnar þar í landi) var sýnt fram á víðtæka erfðablöndun en hún greindist í 115 stofnum (66%) og þar af greindist mikil erfðablöndun í 50 laxastofnum (29%) (Diserud o.fl. 2017). Í annarri viðamikilli rannsókn var síðan sýnt fram á áhrif erfðablöndunarinnar á lífsöguþættina aldur og stærð laxa (þætti sem hafa áhrif á hæfni stofna) sem breyst hafa í mörgum stofnum Noregs (Bolstad o.fl. 2017).

Dr. Kjetil Hindar, einn helsti sérfræðingur Noregs hvað áhrif eldislaxa á villta laxastofna varðar og einn meðhöfunda ofangreindra rannsókna, telur að áframhaldandi innblöndun í Noregi leiði til þess að laxar í náttúrunni muni eiga uppruna sinn hjá eldislöxum fremur en hjá villtum löxum og að nú sé í gangi ferli sem sé að breyta villtum laxastofnum verulega. Hann telur að það sama muni gerast á Íslandi en hægar vegna minni skyldleika stofna. Hann telur skynsamlegast fyrir Íslendinga að undirbúa notkun á betri eldistækni en gert er í dag, t.d. með því að nota ófrjóan lax í eldi (Hindar 2016).

Frekari útgáfa leyfa er óforsvaranleg

Að mati Erfðanefndar landbúnaðarins er frekari útgáfa leyfa til eldis á frjóum laxi af erlendum uppruna í sjókvíum óforsvaranleg miðað við stöðu leyfisveitinga og skorti á upplýsingum um áhrif eldisins á villta laxastofna í íslenskum ám. Nefndin ráðleggur stjórnvöldum að koma í veg fyrir alla frekari útgáfu leyfa til sjókvíaeldis á laxi, þ.m.t. þá tugi þúsunda tonna sem komin eru í formleg umsóknarferli. Nefndin ráðleggur vöktun á erfðablöndun og hlutdeild eldislaxa í laxám á og við fiskeldissvæði. Jafnframt hvetur nefndin til að hafnar verði rannsóknir á notkun ófrjórra eldislaxa samhliða því að kannaðar verði aðrar aðferðir en sjókvíaeldi til laxeldis, þ.e. aðferðir sem koma í veg fyrir slysasleppingar eins og t.d. landeldi í endurnýtingarkerfum.

Erfðanefnd landbúnaðarins er sérfræðinganefnd skipuð af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og starfar eftir búnaðarlögum (nr. 70/1998 með síðari breytingum), lögum um innflutning dýra (nr. 54/1990 með síðari breytingum) og samkvæmt reglugerð um varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði (nr. 151/2005). Í 1. gr. reglugerðarinnar segir: „Í þessari reglugerð er kveðið á um verkefni erfðanefndar landbúnaðarins og um nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja varðveislu og sjálfbæra nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði…“

Samkvæmt reglugerðinni eru verkefni nefndarinnar m.a. „að veita ráðgjöf til hagsmunaaðila og stjórnvalda um varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði“ þar sem „erfðaauðlindir í landbúnaði“ eiga við „… lífverur sem eru ræktaðar og/eða nýttar í landbúnaði“ og falla ferskvatnsfiskar þar undir. Stefnumótun nefndarinnar birtist í ritinu „Varðveisla erfðaauðlinda Landsáætlun erfðanefndar landbúnaðarins 2014-2018“ (Anon 2014).

Heimildir

Anon (2014) Varðveisla erfðaauðlinda – Landsáætlun erfðanefndar landbúnaðarins 2014–2018. 50 bls. http://eldriagrogen.brink.is/utgefid-efni/

Bolstad GH, Hindar K, Robertsen G, Jonsson B, Sægrov H, Diserud OH, Fiske P, Jensen AJ, Urdal K, Næsje TF, Barlaup BT, Florø-Larsen B, Lo H, Niemelä E og Karlsson S (2017) Gene flow from domesticated escapes alters the life history of wild Atlantic salmon. Nature Ecology & Evolution 1: 0124

Diserud OH, Hindar K, Karlsson S, Glover K og Skaala Ø (2017) Genetisk påvirkning av rømt oppdrettslaks på ville laksebestander – status 2017. NINA Rapport 1337. 55 bls.

Glover KA, Solberg MF, McGinnity P, Hindar K, Verspoor E, Coulson MW, Hansen MM, Araki H, Skaala Ø og Svåsand T (2017) Half a century of genetic interaction between farmed and wild Atlantic salmon: Status of knowledge and unanswered questions. Fish Fisheries, 1–38.

Hindar K (2016, 14. apríl) Umræður (5. hluti) á málþingi LS og LV um neikvæð umhverfisáhrif sjókvíaeldis við Íslandsstrendur, Reykjavík. Sótt 20. apríl 2017 af

https://www.youtube.com/watch?v=oXD4YTnC_Ks&list=PLTxvgMGI4VtCET82M9qNkcocLT42EUQYi

MAST (2017) Ársskýrsla dýralæknis fisksjúkdóma 2016. 44 bls.

Svåsand T, Karlsen Ø, Kvamme BO, Stien LH, Taranger GL og Boxaspen KK (ritstj.) (2016) Risikovurdering norsk fiskeoppdrett 2016. Fisken og havet, særnummer 2–2016. 190 bls.

Taranger GL, Svåsand T, Kvamme BO, Kristiansen T og Boxaspen KK (ritstj.) (2014) Risikovurdering norsk fiskeoppdrett 2013. Fisken og havet, særnummer 2–2014. 155 bls.