Landnámshænsni

Uppruni og saga

Mjög litlar heimildir eru um uppruna landnámshænsnanna sem svo eru nefnd, annað en að núlifandi stofn er kominn af fuglum sem safnað var saman víða um land 1974-1975. Rannsóknir á stofninum eru fáar og ekki hægt að fullyrða um uppruna út frá þeim. Veruleg fjölbreytni er í litum og útlitseiginleikum hænsnanna sem er jákvætt fyrir áhuga fólks á ræktun þeirra til yndisauka.

Ræktunarstarf og nýting

Ekki er hægt að tala um sérstakt skýrsluhald með ætternisupplýsingum. Stofnað hefur verið Eigenda- og ræktendafélag Landnámshænsna  sem hefur tekist með virku félagsstarfi, m.a sýningarhaldi, að vekja talsverðan áhuga á stofninum

Varðveislugildi

Upplýsingar um fjölda og fjölbreytni íslenska hænsnastofnsins eru takmarkaðar en talið er að stofninn telji yfir 3000 fugla. Eigenda- og ræktendafélags Landnámshænsna (ERL) var stofnað 1. nóvember 2003. Meginmarkmið félagsins er að halda stofninum hreinum, heilbrigðum, litfögrum og stuðla að upplýsingum og leiðbeiningum fyrir eigendur og ræktendur. Félaginu hefur með virku félagsstarfi, m.a. sýningum, að auka áhuga á ræktun hænsnanna sem stuðlað hefur að fjölgun þeirra á undanförnum árum. Ræktunar markmið fyrir stofninn má finna á heimasíðu ERL .

Heimild: Erfðanefnd landbúnaðarins (2014). Íslenskar erfðaauðlindir – Landsáætlun um verndun erfðaauðlinda í íslenskri náttúru og landbúnaði 2014-2018. Reykjavík: Erfðanefnd Landbúnaðarins.