Íslenski hundurinn

Uppruni og saga

Svipað og með hænuna er íslenski fjárhundurinn afrakstur björgunaraðgerðar.

Erfðafræðilegur bakgrunnur stofnsins er mjög þröngur, „stofnhundar“ eru aðeins 23 og í greiningu á ætternisskrám kemur fram að þrír hundar eru ríkjandi forfeður með yfir 80% erfðaframlag. Mældur og reiknaður skyldleiki er talsverður (20-25%) en það hefur ekki komið niður á breytileika.

Ræktunarstarf og nýting

Um ræktun hans er sérstök deild innan Hundaræktarfélags Íslands og hefur deildin sett ítarleg ræktunarmarkmið fyrir íslenska hundinn og reglur um skráningu einstaklinga í ættbók (Deild íslenska fjárhundsins innan Hundaræktunarfélags Íslands). Þar er einnig að finna upplýsingar um íslenska hunda eftir eldri heimildum og sögu björgunaraðgerðanna.

Formaður deildarinnar telur stofninn hér á landi telja um 650 einstaklinga og mun fleiri eru skráðir erlendis. Hann álítur að skyldleiki innan stofnsins fari minnkandi vegna skipulags ræktunarstarfs.

Varðveislugildi

Íslenski hundastofninn er mjög vel skráður og mikill áhugi fyrir ræktun hans á þeim forsendum sem gilda um slíka stofna.

Rannsóknir

Rannsókn styrkt af erfðanefnd landbúnaðarins var gerð á erfðabreytileika íslenska fjárhundsins og möguleg tengsl erfðabreytileika á heilsu og viðkomu stofnsins.Kannað var hvort beint samband væri á milli skyldleikaræktar og tveggja svipfarseinkenna sem mögulega geta tengst skyldleikaræktun, mjamalos og gotstærð. Niðurstöður sýndu að sterkt samband var á milli skyldleikaræktarstuðuls og mjamaloss þegar notuð voru ætternisgögn en veikt þegar sameindaerfðafræðilegir metlar voru notaðir. Ekki voru marktæk áhrif skyldleikaræktar á gotstærð. Grein um þessa rannsókn má nálgast hér

Ætternisupplýsingar íslenskra hunda frá sjö löndum voru nýttar í hollenskri rannsókn á erfðabreytileika stofnsins.

Heimild: Erfðanefnd landbúnaðarins (2014). Íslenskar erfðaauðlindir – Landsáætlun um verndun erfðaauðlinda í íslenskum landbúnaði 2014-2018. Reykjavík: Erfðanefnd Landbúnaðarins